Sími: 567 3560

Leki í heimahúsum

Þessi grein um okkur birtist í fylgiriti Morgunblaðsins (Land og Saga).

Rakavandamál þekkja flestir húseigendur á Íslandi og hvort sem það á við eldri hús eða nýbyggingar þá virðist rakinn gjarnan finna sér leið inn með tilfallandi tjóni. Með því að sprauta sérstökum þéttiefnum inn í sprungur og gluggaramma býður fyrirtækið Básfell upp á skothelda og varanlega lausn til að taka á þessum alltof algengu lekavandamálum.

Básfell hefur verið starfandi síðan árið 1984 og má því ljóst vera að umtalsverð reynsla er innan fyrirtækisins. Þorgrímur Ísaksen, forstjóri Básfells, segir að fyrirtækið leggi mikla áherslu á að veita vandaða þjónustu á sanngjörnu verði. Fyrirtækið tekur að sér að laga flesta leka sem myndast í mannvirkjagerð og leggur Þorgrímur áherlsu á að það sem fyrirtækið taki að sér verði þétt.

Gluggaramminn lekur 
Lekavandamál geta verið af ýmsum toga og er líklega einna algengast að þeirra verði vart í kring um gluggaop í húsum, en Básfell hefur mikla reynslu í þéttingum á gluggarömmum til að stöðva vatnsleka og rakamyndun. Við það beitir fyrirtækið sérstakri „bólusetningar“ tækni sem Þorgrímur segir að hafi aldrei brugðist, en síðan tæknin var innleidd hjá Básfelli árið 1995 segir Þorgrímur að hann hafi aldrei fengið kvörtun. Bólusetningin fer þannig fram að boruð eru göt í trérammann og sérstöku efni dælt inn í skilin, en efnið 15-25 faldast að rúmmáli og þéttir þannig gluggann. Tappar eru svo settir í götin. Við þéttingar á gluggarömmum notar Básfel vörur frá þýska framleiðandanum Webac, sem eru framleiddar eftir evrópskum reglugerðum.
 
Válegt veður framundan 
Þorgrímur segir verulega algengt að frágangi við gluggaísetningar sé ábótavant á Íslandi og ekki síst í nýbyggingum. „Við höfum talsvert verið að þétta gluggaísetningar í nýbyggingum sem hefur verið gengið frá svo illa að þeir halda ekki vindi, en það þarf auðvitað ekki nema gat á stærð við nálarauga til að það byrji að leka. Svo er ekki óalgengt að gluggaefni komi erlendis frá og sé sett jafnvel blautt í og þegar tekur að þorna að sumri til hopar það og dregur sig úr girðinu. Svo þegar rignir aftur þenst efnið út og þá er ekkert víst að það hitti aftur í girðið. Þannig höfum við lent í því að fólk hefur hringt í okkur með gluggann liggjandi á gólfinu fyrir framan sig,“ segir Þorgrímur. Þegar rakavandamál koma upp við glugga fylgir því að málning og spasl nær ekki festu, losnar frá og er því sífellt til ama, en hvimleiðasta fylgifisk rakavandamála segir Þorgrímur tvímælalaust vera myglusveppinn. Í þjóðfélagsumræðunni hefur sífellt borið meira á áhrifum myglusveppa á heilsu fólks og geta vísast flestir sammælst um að í engum tilfellum séu áhrifin góð. „Með því að koma í veg fyrir rakamyndun og leka komum við í raun í veg fyrir myglusveppavandamálið. Um leið og rakinn hefur verið lagaður þornar efnið upp og myglusveppir geta ekki þrifist án rakans,“ segir Þorgrímur.
 
Varanalegar sprunguviðgerðir
Einnig er algent að leka verði vart þegar steypusprungur myndast og við steypuskil og á Básfell einnig ráð við því. Þá eru boruð 45° göt inn í steypuna og settir sérstakir nipplar inn í og svo er dælt inn með sérstakri dælu efnum sem þenjast út inn í sprunguni og þétta hana algerlega. Fyrirtækið hefur beitt þessari aðferð síðan 1990 og segir Þorgrímur að eins og í gluggaþéttingum hafi hann aldrei fengið athugasemd. „Þegar sagað er inn í sprungur er alls ekkert víst að viðgerðin sér varanleg og raunar er ekki óalgengt að lekinn komi upp aftur nokkrum árum eftir að slíkar viðgerðir hafa átt sér stað. Hjá okkur borgar þú bara einu sinni fyrir hverja sprungu,“ segir Þorgrímur.

Efnin sem Básfell notar segir Þorgrímur að hafi gefið einstaklega góða raun við íslenskar aðstæður og nefnir í því samhengi að í Suðurlandsskjálftanum hafi þessi efni gefið góða raun í þeim húsum sem það var notað m.a. Sjúkrahúsi Suðurlands. „Byggingarverkfræðingar hafa raun verið að fyrirskrifa þetta efni síðastliðin 20 ár, meðal annars til þéttingar á flestum virkjunum landsins, sem er ekki undarlegt sé litið til þess árangurs sem náðst hefur,“ segir Þorgrímur.